Innlent

Sjálfstæðismenn vongóðir þrátt fyrir slakt gengi

Heimir Már Pétursson skrifar
Sjálfstæðismenn í Reykjavík eru sannfærðir um að flokkurinn muni fá mun meira fylgi en kannanir gefa til kynna. Það sé ekki nýjum oddvita flokksins að kenna hvað fylgið sé lítið heldur hafi málefni flokksins ekki komist til skila til kjósenda.

Nú tíu dögum fyrir kosningar er Sjálfstæðisflokurinn í Reykjavík að mælast með um 21,5 prósent atkvæða og ef það yrði niðurstaða kosninga yrði ekki hægt að kalla það annað en afhroð. Stjórn Varðar kom saman í Valhöll í hádeginu til að ræða málin en að loknum þeim fundi voru menn alls ekki á því að gefast upp.

Það er þó greinilegt að Sjálfstæðismönnum í borginni stendur ekki á sama um það litla fylgi sem flokkurinn er að mælast með í könnunum. En nú síðast í gær birti Morgunblaðið könnun þar sem fylgið er komið niður í 21,5 prósent sem gæfi flokknum einungis þrjá borgarfulltrúa. Það yrðu söguleg afhroð í kosningum.

Sirrý Hallgrímsdóttir aðstoðarmaður menntamálaráðherra og stjórnarkona í Verði segir menn hafa áhyggjur af stöðunni.

„Já, vissulega að einhverju leyti. En við höfum fulla trú á því að okkur eigi eftir að ganga betur en nýjustu kannanir sýna með þessa stefnu sem við erum með. Ég held að kjósendur og ég held að kjósendur setji stefnu og málefni fyrst á oddinn,“ segir Sirrý.

Það var nokkuð umdeilt hvernig valdist í oddvitasætið þegar Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri utan að landi valdist í fyrsta sæti og því eðlilegt að spyrja hvort það hafi verið rætt á fundi Varðar að skipta um leiðtoga á síðustu metrunum?.

„Nei, það var ekki rætt og stóð aldrei til að ræða,“ segir Sirrý. Þá hafi það ekki verið umdeilt að setja Halldór í fyrsta sætið. Hann hafi tekið þátt í prófkjöri og fengið mjög fína kosningu í leiðtogasætið.

Óttarr Guðlaugsson formaður Varðar segir fundinn í dag ekki hafa verið neinn krísufund.

„Nei, síður en svo. Við höfum verið að funda vikulega í einn og hálfan mánuð. Eðlilega, það eru að koma kosningar, það styttist í kosningar og þá þarf að skoða spilin. Það er það sem við vorum að gera,“ segir Óttarr.

En kannanir geta varla valdið mikilli gleði í ykkar röðum?

„Nei, nei enda verður þetta ekki niðurstaða kosninganna. Þetta eru skoðanakannanir en við spyrjum að leikslokum. Við spyrjum að því sem kemur upp úr kjörkössum og það er það eina sem gildir,“ segir Óttarr Guðlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×