Innlent

Óttast að staða barna geti haft áhrif á málsmeðferð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íris Stefánsdóttir.
Íris Stefánsdóttir. mynd/skjáskot af vef RÚV.
Móðir stúlku sem Birkir Már Ingimarsson beitti ofbeldi segist oft hafa reynt að fá yfirvöld til að flýta máli dóttur sinnar en hún telur að það geti haft áhrif á framgang mála ef börn eru í neyslu. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.

Birkir var dæmdur í tveggja ára og níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudag fyrir að hafa brotið gegn þremur börnum árið 2010.

Ákæran á hendur manninum var í sjö liðum og játaði hann sök í fimm en héraðsdómur sakfelldi hann fyrir tvo. Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi átt sér engar aðrar málsbætur en játanir sínar.

„Þegar ég hringdi í lögreglu var í raun alltaf verið að skoða eitthvað eða þá að þetta hefði jafnvel verið bara ofan í skúffu og engin skýr svör af hverju þetta var ekki farið lengra," segir Íris Stefánsdóttir, móðir stúlku sem Birkir var dæmdur fyrir að níðast á, í samtali við fréttastofu RÚV.

Íris sagði ennfremur að þegar hún hringdi í saksóknara þá var henni ávallt tjáð að málið væri ofarlega á bunka og alveg að fara fyrir dóm.

„Vitandi það að maður getur ekkert gert, reynir maður að ýta þessu frá sér. Dóttir mín er að fást við áfallastreituröskun, kvíðaröskun, þunglyndi, og hefur þurft að takast á við afleiðingar þessa ofbeldis, en líka að takast á við það að þetta sé að velkjast um í kerfinu og engin úrlausn og hangandi yfir okkur í fjögur ár."

„Miðað við þau mál sem maður hefur fylgst með í fjölmiðlum, og af þeim málum sem eru að taka svona ofboðslega langan tíma og sérsaklega núna undanfarið þar sem er verið að dæma í málum frá árunum 2010 og 11, þá virðast þolendur málanna alls staðar hafa verið í neyslu," segir Íris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×