Innlent

Karlmaður á sjötugsaldri dæmdur fyrir líkamsárás

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sagði hinn hafa borið á sig sakir og bendlað sig við bruna og skemmdarverk. Því hafi hann farið að heimili hans og upphófust þar átökin.
Maðurinn sagði hinn hafa borið á sig sakir og bendlað sig við bruna og skemmdarverk. Því hafi hann farið að heimili hans og upphófust þar átökin. vísir/stefán
Sextíu og fimm ára gamall karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa brotist inn á heimili manns og veist að honum. Honum er jafnframt gert að greiða sjötíu og níu þúsund krónur í sakarkostnað.

Manninum er gefið að sök að slá annan mann tveimur hnefahöggum í andlitið. Sá hlaut glóðarauga umhverfis vinstra auga og stórt mar efst á vinstri kinn, mar og bólgu yfir nefrót vinstra megin og yfir efri hluta vinstri kinnar.

Maðurinn sagði hinn hafa borið á sig sakir og bendlað sig við bruna og skemmdarverk. Því hafi hann farið að heimili hans og upphófust þar átökin.

Ákærði neitaði sök í málinu og samkvæmt lögreglurannsókn voru engin vitni að átökunum. Í aðalmeðferð málsins var upplýst að vitni var að ársinni en kvaðst vitnið ekki hafa treyst lögreglu vegna fyrri samskipta við hana. Ekki var lagður trúnaður á vætti þessa síðbúna vitnis.

Sá ákærði á langan sakaferil að baki, eða allt frá árinu 1973. Árið 2006 var hann dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir líkamsárás og hafði sá dómur ítrekunaráhrif í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×