Innlent

Svínabændur segjast ekki stunda ólöglegar geldingar

Bjarki Ármannsson skrifar
Svínabændur á Íslandi segjast ekki stunda ólöglegar geldingar.
Svínabændur á Íslandi segjast ekki stunda ólöglegar geldingar. Vísir/GVA
Svínabændur hafna fullyrðingum fréttastofu Ríkisútvarpsins þess efnis að stundaðar séu ólöglegar geldingar á grísum á íslenskum svínabúum. Þetta kemur fram í tilkynningu Svínaræktarfélags Íslands.

Í kvöldfréttum RÚV sagði Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir geldingar eins og þær tíðkast nú á íslenskum svínabúum vera ólöglegar. Hún ætli sér að gefa svínaræktendum aðlögunartíma til áramóta til að breyta starfsháttum sínum.

Í tilkynningunni segir hinsvegar að ákvæði íslenskra laga um geldingar og framkvæmd þeirra séu með þeim ströngustu sem þekkjast. Jafnframt vinni bændur að heilum hug að innleiðingu nýrra laga um velferð dýra og að aðbúnaður og velferð íslenskra svína verði með því sem best gerist í heiminum þegar innleiðingu laganna líkur.

Tilkynningin í heild sinni er birt hér:

Vegna frétta Ríkisútvarpsins í gærkvöldi vilja svínabændur koma því á framfæri að þeir vinna að heilum hug, í samstarfi við stjórnvöld, að innleiðingu nýrra og framsækinna laga um velferð dýra. Þegar innleiðingu þeirra laga lýkur mun aðbúnaður og velferð íslenskra svína verða með því sem best gerist í heiminum. Íslenskur svínabúskapur hefur nú þegar þá sérstöðu að nær engin lyf eru notuð í búgreininni, nema í algjörum undantekningartilfellum.

Svínabændur hafna fullyrðingum fréttastofu Ríkisútvarpsins þess efnis að stundaðar séu ólöglegar geldingar á grísum á íslenskum svínabúum. Með hinum nýju lögum hafi reglur um geldingar á grísum verið hertar verulega frá því sem verið hefur.  Ákvæði íslenskra laga um geldingar og framkvæmd þeirra með þeim ströngustu sem þekkjast.  Því hafa íslenskir svínabændur þurft að þróa aðferðir sem best henta til þess að uppfylla ákvæði laganna. Svínabændur vinna nú að því í samstarfi við stjórnvöld að þróa slíkar aðferðir. Af þeim ástæðum hafa stjórnvöld veitt svínabændum svigrúm til þess að mögulegt verði að uppfylla skilyrði laganna. Fullyrðingar fréttastofu Ríkisútvarpsins um að íslenskir svínabændur stundi lögbrot eru því rangar, í besta falli afar langsóttar.

Svínabændur benda á að hin nýju lög um velferð dýra tóku gildi um síðustu áramót. Lögin ganga mun lengra en sambærileg löggjöf í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við eða flytjum inn svínaafurðir frá. Það er því töluverð áskorun fyrir bæði stjórnvöld og bændur að innleiða þau.  Hafa reglugerðir sem til stendur að setja með stoð í hinum nýju lögum raunar enn ekki tekið gildi.

Svínabændum er mikið í mun að innleiðingin laga og reglna á þessu sviði takist vel og hafa þeir af þeirri ástæðu farið þess á leit við landbúnaðarráðherra að erlendur sérfræðingur verði fenginn til þess að gera úttekt á íslenskum svínabúum, með hliðsjón af gildistöku nýju laganna, og til að veita ráðgjöf um nauðsynlegar úrbætur. Á næstu árum er því ljóst að miklar breytingar munu verða í íslenskum svínabúum sem miða að aukinni velferð og bættum aðbúnaði svína. Þá hafa svínabændur einnig kallað eftir afstöðu ráðherra til þess hvort ekki sé ástæða til að gera sömu kröfur um velferð vegna þeirra þeirra svínafurða sem fluttar eru hingað til lands frá öðrum löndum og gerðar eru samkvæmt íslenskum lögum.

Það er markmið íslenskra svínabænda að bjóða upp á svínaafurðir sem uppfylla ýtrustu kröfur er varðar gæði, velferð og aðbúnað á eins hagstæðu verði og kostur er fyrir íslenska neytendur.


Tengdar fréttir

Fjalli um geldingar á svínum

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Hópnum er m.a. ætlað að fjalla um aðbúnað og meðferð svína.

Grísir skulu vera deyfðir við geldingar

Bundið verður í lög að dýr séu skyni gæddar verur og eigi að vera laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta, þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma. Frumvarp um velferð dýra var samþykkt til þriðju umræðu á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×