Sverigedemokraterna, eða SD, er hægrisinnaður öfgaflokkur sem barist hefur ötullega fyrir hertri innflytjendalöggjöf í Svíþjóð. Hafa áherslur flokksins verið sagðar einkennast af kynþáttafordómum, andúð á útlendingum, popúlisma og fasisma. Flokkurinn, sem er andsnúinn aðild að Evrópusambandinu hlaut 9.7% kosningum til Evrópuþingsins á dögunum og tvo menn kjörna.
Í myndbandinu beina ungliðarnir orðum sínum að ungu fólki í Evrópu og vara það við áhrifum innflytjenda. Segja þau meðal annars að fyrirskipanir frá Brussel séu að hneppa þjóðir Evrópu í ánauð, að Evrópu blæði út og að þau séu af kynslóðinni sem muni verja þjóð sína fyrir skaðlegum erlendum áhrifum.
Athygli vekur að Ómari Richter, íslenskum meðlimi flokksins, bregður fyrir þar sem hann ávarpar áhorfendur á íslensku og tekur hann í sama streng og aðrir í myndbandinu. „Brjálæðislegar hugmyndir með blandaða menningu og fjöldainnflutningur á fólki stútar sundur okkar sameinaða fólki,“ segir Ómar meðal annars.
William Hahne, einn þeirra sem sést í auglýsingunni með Ómari, rataði í íslenska fjölmiða í nóvember 2010 þegar hann veittist að barþjóni af palestínskum uppruna í miðborg Reykjavíkur. Kastaði Hahne í hann glasi og hreytti í hann rasískum fúkyrðum. Var hann þá á vegum sendinefndar Svíþjóðar á Norðurlandaráðsþinginu sem fór fram hér á landi.
Myndbandið kom inn á netið í gær og hefur verið horft á það rúmlega 36 þúsund sinnum. Það má sjá hér að neðan.