Innlent

Hlúa að náttúruperlum meðan beðið er eftir passa

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að frumvarp um náttúrupassa sé tilbúið í ráðuneyti sínu. Hún segir að síðasti vetur hafi verið notaður vel en málið hafi verið of mikilvægt til að keyra það í gegnum þingið að þessu sinni. 

Sérstakt fjármagn verður veitt í sumar til þeirra ferðamannastaða sem liggja undir skemmdum vegna átroðnings.

Gegn gjaldi mun náttúrupassinn nýtast sem aðgangur að helstu náttúruperlum landsins. Nokkuð skiptar skoðanir voru um útfærsluna á passanum hjá aðilum innan ferðaþjónustunnar og ekki tókst að klára frumvarp vegna passans á því þingi sem frestað var á föstudag.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var gestur Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Við ákváðum að koma ekki fram með frumvarpið núna í vor. Ég mat það þannig að þetta mál væri allt of mikilvægt til að setja undir sig hausinn og keyra það í gegn. Ég vildi frekar klára þau mál sem mér fannst ekki kláruð í sambandi við þetta og freista þess að ná sátt um þessa leið sem ég tel algjöra forsendu fyrir því að koma þessu á. En við erum tilbúin með frumvarp og notuðum veturinn vel,“ sagði Ragnheiður Elín.

Hún sagði að gjaldtaka á ferðamannastöðum hefði aldrei verið sjálfstætt markmið heldur náttúruvernd og öryggi ferðamanna, þ.e. að peningarnir nýttust til að tryggja það. Þar sem ekki hafi tekist að klára frumvarp um náttúrupassann hafi verið ákveðið að veita sérstakt fjármagn til þeirra ferðamannastaða þar sem aðkallandi þörf væri á endurbótum en Ragnheiður Elín sagðist ætla að kynna það mál í ríkisstjórninni í næstu viku.

„Við erum með ákveðinn lista. Við erum að vinna þetta og ég kem vonandi með þetta inn í ríkisstjórn í næstu viku. Við komum með sérstaka fjárveitingu til að bregðast við þar sem að brennur, þar sem náttúran liggur undir skemmdum og þar sem hægt er að hefja framkvæmdir,“ sagði ráðherrann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×