Innlent

Sama hlutfall kvenna í framboði og 2010

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Alls eru 184 listar í framboði til 74 sveitarstjórna í komandi sveitarstjórnarkosningum 31. maí. Á kosningavef Innanríkisráðuneytisins, Kosning.is segir að á listunum eigi 2.916 einstaklingar sæti. Þar af 1.536 karlar og 1.380 konur. Karlar eru því 53 prósent frambjóðenda og konur 47 prósent.

Það eru sömu hlutföll og voru í kosningunum 2010.

Listakosningar eru í 53 sveitarfélögum. Þar hafa fleiri en einn listi verið lagður fram og því mun hlutfallskosning fara fram.

Sjálfkjörið er í þremur sveitarfélögum, þar sem einungis einn listi býður fram.

Óbundnar kosningar verða í 18 sveitarfélögum. Enginn listi kom fram í þeim sveitarfélögum og því eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri. Að þeim undanskildum sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

Á kosningavefnum segir að allar þessar tölur séu samhljóða því sem verið hafi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þá hafi 185 listar verið í framboði til 76 sveitarstjórna. Á listunum áttu 2.846 einstaklingar sæti og hlutföllin á milli kynjanna þau sömu og nú.

Það ár fóru listakosningar fram í 54 sveitarfélögum og óbundnar í átján. Sjálfkjörið var í fjórum sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×