Innlent

Lágtekjufólk og leigjendur verði eftir í aðgerðum stjórnvalda

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA/DANÍEL
„Óréttlætið er svo augljóst,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Í máli sínu ræddi Árni Páll um frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu húsnæðislána.

Árni vék að ummælum Gylfa Arnbjörnssonar á Facebook í gær og sagðist ekki skilja hvernig ríkisstjórnin gæti leyft sér að leggja ekkert til þeirra tekjulægstu og að gengið væri fram með þeim hætti að skilja þetta fólk eftir.

Árni sagði einnig ljóst að í stað kosningaloforðs um að 300 milljarðar frá hrægömmum yrðu notaðir í leiðréttinguna, yrðu 70 milljarðar af skattfé notað.

Sigmundur Davíð spurði forseta Alþingis hvort hann væri jafn undrandi á því og Sigmundur að enn einu sinni væri verið að halda því fram að það ætti að kosta 300 milljarða að leiðrétta lán. Hann sagðist hafa í mörg ár reynt að útskýra að leiðrétting væri ekki svo dýr, eins og síðasta ríkisstjórn hafa haldið.

Sakaði hann Árna Pál um að snúa úr hlutunum. Skattfé væri notað til aðgerðanna þar til svigrúm skapaðist til annars og sagði skattlagningu á bankana hjálpa til þar.

Þá sagði hann að félagsmálaráðherra muni leggja fram minnisblað um leið til að koma til móts við þann hóp sem Árni talaði um.

Þá steig Árni Páll aftur í pontu og spurði hvernig ætti að seðja leigjendur með minnisblöðum. Sagði hann engar efndir vera að finna gagnvart lágtekjufólki og skilja ætti leigjendur eftir.

Sigmundur Davíð tók næst til máls og sagði að ef Árni hefði fyrir því að kynna sér greinargerð frumvarpsins, sæi hann að ekki verið að skilja lágtekjufólk eftir. Sagði hann að auðvitað yrðu áfram hópar sem þyrfti aðstoð og ríkisstjórnin myndi áfram vinna við að leysa vanda þeirra. Hann leystist þó ekki nema efnahagslífið kæmist á réttan kjöl.


Tengdar fréttir

Svona sækirðu um leiðréttingu

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu framkvæmd stefnu ríkisstjórnar Íslands varðandi skuldaleiðréttinguna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×