Innlent

Sáttafundur sjálfstæðismanna í Garðabæ í kvöld

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Frá fjögurra klukkustunda fundi sjálfstæðismanna í Garðabæ á dögunum.
Frá fjögurra klukkustunda fundi sjálfstæðismanna í Garðabæ á dögunum. Vísir/Daníel
Í kvöld fer fram fundur fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, þar sem Gunnar Einarsson bæjarstjóri mun leggja fram breytingartillögu á framboðslista flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum sem fram fara í vor.

Fyrir tveimur vikum var listi uppstillinganefndar flokksins samþykktur af fulltrúaráðinu, en sá listi var nokkuð umdeildur og ákvað Gunnar því að leggja til breytingar á listanum.

Tillagan felur í sér að Gunnar fari úr efsta sæti listans og niður í það áttunda og að Sturla Þorsteinsson, einn þriggja reyndra bæjarfulltrúa í Garðabæ sem ekki komst á lista uppstillingarnefndarinnar, fari í það sjöunda. Samkvæmt tillögunni þarf einn frambjóðenda sem nú er á lista að víkja.

Samkvæmt heimildum Vísis sagði Sigurður Viðarsson, formaður uppstillingarnefndarinnar,  á fundinum fyrir tveimur vikum að listinn sem nefndin skilaði frá sér væri endanlegur.

Óvíst er hvernig sáttartillaga Gunnars verður samþykkt af fulltrúaráðinu. Líklega þarf fulltrúaráð flokksins að kjósa í hvert sæti fyrir sig.

Þrjár leiðir til að velja á lista

Í fjórða kafla skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins kemur fram að þrjár leiðir séu til þess að velja frambjóðendur á framboðslista. Ein leiðin er prófkjör, önnur leiðin er að skipa uppstillingarnefnd og sú þriðja er að fulltrúaráð kjósi í hvert sæti fyrir sig.

Tveir þriðju fulltrúaráðsins þurfa að samþykkja skipun í uppstillinganefnd, ef ákveðið er að fara þá leið til þess að skipa framboðslista.

Í reglum Sjálfstæðisflokksins kemur eftirfarandi fram:

„Tillaga uppstillingarnefndar um skipan framboðslista skal lögð fyrir til afgreiðslu á fundi kjördæmis- eða fulltrúa-ráðs sem skulu skipuð bæði aðal- og varamönnum. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til að samþykkja listann.“

Ákveðið að stilla upp í Garðabæ

Kosningarnar sem fara fram í vor verða þær fyrstu eftir að Álftanes og Garðabær sameinuðust, en kosið var um sameininguna í október árið 2012 og var samþykkt af rúmlega 53% Garðbæinga og tæplega 88% Álftnesinga.

Samkvæmt heimildum Vísis var ákveðið að skipa uppstillingarnefnd til þess að raða á listann vegna þriggja megin ástæðna. Í fyrsta lagi höfðu Sjálfstæðismenn á Álftanesi áhyggjur af því að prófkjör myndi ekki koma vel út í nýju og stærra sveitarfélagi. Einnig átti uppstillingarnefnd að horfa til aldursdreifingar og kynjahlutfalls á listanum.

Undanfarnar tvær bæjarstjórnarkosningar hafa Sjálfstæðismenn farið prófkjörsleiðina en þurft að breyta lista sínum i báðum tilvikum, til þess að rétta kynjahlutfallið á lista flokksins.

Endanlegur listi

Listinn sem uppstillingarnefnd flokksins lagði fyrir fulltrúaráðið á næstum fjögurra klukkustunda löngum hitafundi fyrir tveimur vikum var samþykktur með um 60 prósentum atkvæða. Ýmsar breytingatillögur voru lagðar fram á fundinum og var ljóst að listinn væri umdeildur. Einnig var lagt til að hafna listanum í heild sinni, en sú tillaga var felld.

Samkvæmt heimildum Vísis, sagði Sigurður Viðarsson, formaður uppstillinganefndar á fundinum, að listi nefndarinnar væri endanlegur – honum yrði ekki breytt.

Kosið um hvert sæti?

Ef uppstillingarnefndin heldur því til streitu að listinn, sem hún lagði fram fyrir tveimur vikum, sé endanlegur er ljóst að fulltrúaráðið þarf að kjósa um hvert sæti fyrir sig. Nákvæmar reglur eru til um slíka kosningu í Sjálfstæðisflokknum:

„Kjördæmisráð og fulltrúaráð geta ákveðið að boða fund þar sem raðað verði upp framboðslista fyrir alþingis-eða sveitastjórnarkosningar. Slík ákvörðun þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna og gildir einungis fyrir einar kosningar í senn.

Kjördæmisráð eða fulltrúaráð skulu skipuð bæði aðal- og varamönnum á fundi sem raðar upp framboðslista skv. þessari grein Á þeim fundi skal gengið til kosninga meðal fundarmanna um eins mörg sæti á listanum og ákveðið hefur verið að bjóða fram. Byrjað er á því að kjósa um 1. sætið. Þegar ljóst er hver skipar það sæti er óskað eftir framboðum um 2. sæti. Þar geta þeir sem ekki hlutu kosningu í 1. sætið tekið áfram þátt með framboði sínu til næsta sætis o.s.frv. Miðstjórn setur samræmdar framkvæmdareglur um röðun á framboðslista flokksins.“

Miklar deilur - Kristni boðið sæti

Þegar fulltrúar uppstillingarnefndar höfðu samband við frambjóðendur og tjáðu þeim hvaða sæti á framboðslista flokksins þeim stæði til boða hófust talsverðar deilur innan flokksins.

Þrír reyndir bæjarfulltrúar; Sturla Þorsteinsson, Páll Hilmarsson og Stefán Konráðsson voru ósáttir við að fá ekki sæti ofarlega á lista. Stefán og Páll sögðu í samtali við Vísi að þeim hafi verið tjáð að ástæða þess að þeim væri ekki boðið sæti ofarlega á lista hafi verið að þeir hefðu setið lengur en átta ár. Að uppstillingarnefnd hafi unnið eftir þeirri reglu. Hvorugur hafði heyrt um þá reglu fyrr en þeim var tjáð að þeir fengju sæti neðarlega á lista.

Stefán sagði ennfremur að hann teldi að ekki hafi verið unnið eftir slíkri reglu – þetta hafi verið fyrirsláttur.

Einnig var upphaflega gengið framhjá þremur bæjarfulltrúum sjálfstæðismanna á Álftanesi. Kristinn Guðlaugsson, Kjartan Örn Sigurðsson og Hjördís Jóna Gísladóttir sóttust öll eftir sæti á listanum, en engu þeirra var upphaflega boðið sæti.

Nú hefur Kristni hins vegar verið boðið sæti á listanum samkvæmt heimildum Vísis sem vekur athygli þar sem hann hefur setið í átta ár á lista sjálfstæðismanna. Það stingur í stúf við röksemdafærslu varðandi Sturlu, Pál og Stefán sem áður var vikið að hér að ofan.

Einn fulltrúa Álftnesinga á listanum verður Gunnar Valur Gíslason, fyrrum sveitarstjóri Bessastaðahrepps og síðar Álftaness. Gunnar var sveitastjóri frá 1992 til 2005 en hefur ekki verið í stjórnmálum síðan.

Fundurinn hefst í kvöld klukkan 18 og fer fram í safnaðarheimilinu við Vídalínskirkju.




Tengdar fréttir

Hátt í fjögurra tíma hitafundi lokið

Listi uppstillingarnefndar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ var samþykktur á hitafundi sem lauk fyrr í kvöld. Margar breytingartillögur voru lagðar fram, en engin sammþykkt. Eingöngu einn núverandi bæjarfulltrúi á möguleika á sæti í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.

Bæjarfulltrúar hafna botnsætum á lista

Mikil ólga er nú innan Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, vegna framboðslista sem uppstillingarnefnd flokksins hefur kynnt fyrir frambjóðendum. Þrír bæjarfulltrúar hafa hafnað sæti á listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×