Innlent

Meirihluti vill gjöld í háskóla

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Meira en helmingur landsmanna er hlynntur því að skólagjöld verði tekin upp í háskólum samkvæmt nýrri könnun sem Viðskiptaráð Íslands lét framkvæma.

Þar svaraði 51 prósent aðspurðra því til að vera alfarið, mjög eða frekar hlynnt því að háskólar yrðu fjármagnaðir að hluta til með skólagjöldum. 34 prósent voru andvíg slíkri fjármögnun háskóla en 16 prósent tóku ekki afstöðu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir enga umræðu vera um upptöku skólagjalda í háskólum í nefndinni. „Auðvitað er öll umræða holl og allt í lagi að fá rök með og á móti en hingað til hefur það verið okkar afstaða að gera það ekki, á þeim grundvelli að allir eigi að hafa jafnan aðgang að námi,“ segir Unnur.

Í könnuninni kemur fram að karlmenn eru hlynntari upptöku skólagjalda fremur en konur, 53 prósent karla eru hlynnt en 33 prósent andvíg. Hins vegar eru 47 prósent kvenna hlynnt upptökunni en 34 prósent andvíg.

Þá eykst andstaðan við skólagjöldin í hlutfalli við menntunarstig svarenda. Þannig eru 52 prósent þeirra sem hafa lokið framhaldsnámi í háskóla andvíg skólagjöldum, 34 prósent þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi, en aðeins 21 prósent þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi eða minna.

Vísir/Arnþór
María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs, segist ekki óttast þessa umræðu. 

„Við í Stúdentaráði teljum skólagjöld í raun vera ósýnilega hindrun, sem erfitt er að mæla og við vitum ekki almennilega hverjar afleiðingarnar gætu orðið. Þetta er umræða sem er hollt að taka en það þarf að skoða alla fleti hennar,“ segir María. 

Hún segir það grundvallarafstöðu Stúdentaráðs að aðgengi allra að menntun sé jafnt og ekkert megi vega að því.

Könnun Viðskiptaráðs var framkvæmd 16. til 26. janúar 2014 á netinu. Úrtak var 1.400 manns á öllu landinu, átján ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Þátttökuhlutfall var 59,4 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×