Innlent

Fimm milljónir fyrir flottustu moskuna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Moskan verður byggð á lóð Félags múslima, í Sogamýri. Sverrir segir mikinn áhuga á verkefninu.
Moskan verður byggð á lóð Félags múslima, í Sogamýri. Sverrir segir mikinn áhuga á verkefninu.
„Við erum búin að gera samkomulag við Arkítektafélag Íslands og vonumst til að byrja á samkeppninni sem fyrst,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi um samkeppni í nafni félagsins um hönnun á mosku á lóð samtakana í Sogamýri.

Verðlaunin verða ekkert slor. „Sigurvegarinn fær fimm milljónir í verðlaun. Við erum að reyna að öngla saman fyrir þessu og markmiðið er að byrja keppnina eins fljótt og auðið er, jafnvel í mars,“ útskýrir Sverrir. Fyrst var greint frá málinu á fréttasíðu Eiríks Jónssonar.

Fimm manna dómnefnd verður í keppninni. „Já, við í Félagi múslima tilnefnum þrjá og Arkítektafélagið mun eiga tvo fulltrúa í nefndinni,“ bætir Sverrir við. 

Hann segir engar kvaðir vera á því hvernig moska á að líta út, það sé algjörlega frjálst. „Það verður fróðlegt að sjá þær umsóknir sem berast. Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á þessu verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×