Erlent

Neyðarástand í Taílandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Taílenskir hermenn fylgjast með mótmælendum.
Taílenskir hermenn fylgjast með mótmælendum. Vísir/AP
Taílandsstjórn lýsti seint í gærkvöld yfir neyðarástandi í landinu eftir skotárás á einn stuðningsmanna stjórnarinnar.

Kwanchai Praipana, sem hafði verið í forystu meðal stuðningsmanna stjórnarinnar, varð fyrir tveimur skotum þegar vopnaðir menn óku framhjá heimili hans og skutu af byssum sínum.

Kwanchai liggur nú á sjúkrahúsi. 

Neyðarástandið á að gilda í tvo mánuði og stjórnvöld fá nú víðtæk völd til þess að handtaka fólk, banna samkomur og ritskoða fjölmiðla.

Töluverð harka hefur færst í mótmælin í landinu á síðustu dögum. Gerðar hafa verið árásir á mótmælendur, meðal annars var handsprengjum varpað á þá á föstudag og sunnudag með þeim afleiðingum að einn maður lét lífið og tugir særðust.

Alls hafa þá níu manns látist og meira en 550 særst í átökum tengdum mótmælunum gegn stjórninni síðustu mánuðina.

Stjórnarandstæðingar hafa frá því í nóvember krafist þess að stjórnin segi af sér.

Stjórnin brást við með því að leysa upp þing og boða til kosninga 2. febrúar, en stjórnarandstæðingar láta sér það ekki nægja enda nokkuð ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur meirihlutastuðning meðal landsmanna.

Þess í stað vilja stjórnarandstæðingarnir að bráðabirgðastjórn verði falið að gera breytingar á stjórnskipan landsins áður en efnt verði til nýrra kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×