Erlent

ESB hyggst draga úr losun

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmæli í Brussel í morgun.
Mótmæli í Brussel í morgun. Nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur kynnt hugmyndir sínar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Tillagan framkvæmdastjórnarinnar snýst um að aðildarríki ESB muni árið 2030 vera búin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent frá því sem var árið 1990.

Þetta markmið eigi að taka við af fyrra markmiði, sem snerist um að árið 2020 verði búið að draga úr losun um 20 prósent.

Framkvæmdastjórnin hefur hins vegar verið gagnrýnd fyrir að ganga ekki nógu langt í kröfum, sem gerðar verði um aukna notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Í staðinn fyrir að setja hverju aðildarríki ströng skilyrði er einungis sett fram almenn krafa um að Evrópusambandið í heild verði árið 2030 farin að nota endurnýjanlega orkugjafa sem nemi 27 prósentum af heildarorkunotkun þess.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður nú lögð fyrir Evrópuþingið og leiðtoga aðildarríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×