Erlent

Hörð lög gegn áfengistengdu ofbeldi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barry O'Farrell, forsætisráðherra í Nýja-Suður-Wales.
Barry O'Farrell, forsætisráðherra í Nýja-Suður-Wales. Nordicphotos/AFP
Barry O'Farrell, forsætisráðherra í Nýja-Suður-Wales, brást við hart við fréttum af því að ungur maður hafi látið lífið eftir aðeins eitt högg frá drukknum manni í miðbæ Sydney fyrir stuttu.

O'Farrell kom strax með lagafrumvarp um harðar refsingar við áfengistengdu ofbeldi, og ætlar að hraða þessu frumvarpi í gegnum þingið þannig að þau geti tekið gildi nú um mánaðamótin.

Lögin kveða á um að verði einhver öðrum bana með einu höggi, þá liggi að lágmarki átta ára fangelsi við slíku broti, en að hámarki tuttugu ára fangelsi. Sé brotið tengt áfengis- eða fíkniefnaneyslu sé hámarksrefsingin 25 ára fangelsi.

Jafnframt verður vínveitingastöðum í Sydney og víðar í fylkinu gert skylt að loka fyrr en til þessa hefur verið heimilt, og stórir skemmtistaðir í miðborgum geta þurft að loka snemma nætur.

Andstæðingar O'Farrels í ástralska Verkamannaflokknum hyggjast ekki leggjast gegn þessum breytingum. Það væri pólitískt sjálfsmorð, er haft eftir einum liðsmanni Verkamannaflokksins í ástralska dagblaðinu The Daily Telegraph.

Frumvarpið hefur engu að síður verið gagnrýnt, meðal annars fyrir að brátt muni öll fangelsi verða yfirfull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×