Innlent

Saka faghóp borgarinnar um spillingu

Jakob Bjarnar skrifar
Enn er tekist á um RIFF-málið svokallað; hvort rétt hafi verið að styrkja aðra en RIFF til að standa að kvikmyndahátíði í Reykjavík.
Enn er tekist á um RIFF-málið svokallað; hvort rétt hafi verið að styrkja aðra en RIFF til að standa að kvikmyndahátíði í Reykjavík.
Borgarfulltrúarnir Áslaug María Friðriksdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson fóru mikinn í gær þegar þau gagnrýndu ákvörðun meirihlutans um að vilja ekki endurskoða ákvörðun sína um styrk til Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík eða RIFF á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.

Áslaug gagnrýndi meirihlutann fyrir að vilja ekki taka á málinu og skýla sér að baki niðurstöðu faghóps Bandalags íslenskra listamanna (BÍL). Gagnrýna megi niðurstöður og rökstuðning faghópsins. Þá væri undarlegt að meta að jöfnu hugmynd að hátíð sem aldrei hefur verið haldin og hátíðar sem rekin hafi verið í 10 ára samstarfi við Reykjavíkurborg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins.

„Hostile takeover“

Málið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu en borgaryfirvöld tóku ákvörðun um að hætta fjárveitingum til þeirra sem staðið hafa að RIFF kvikmyndahátíðinni undanfarin tíu ár, en RIFF hlaut 9 milljóna króna styrk í fyrra. Nú var ákveðið að Heimili kvikmyndanna, sem vilja standa að kvikmyndahátíð í Reykjavík 8 milljónir til þess verkefnis. Hrönn Marinósdóttir, framkvæmdastjóri RIFF og stjórnarformaður hefur gagnrýnt þessa ráðstöfun harðlega sem og Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri, sem situr í stjórn RIFF. Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar hefur vísað öllum umkvörtunum á bug og segir ákvörðunina tekna að fengnu áliti faghópi BÍL hvar í sitja Gunnar Hrafnsson, Ólöf Nordal, Randver Þorláksson, Magnea J. Matthíasdóttir og Valdís Óskarsdóttir. Þangað beindu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins spjótum sínum, þegar þetta mál var til umfjöllunar í borgarráði. Áslaug sagði einnig að í raun væri faghópurinn nátengdur þeim aðilum sem vilja halda hina nýju hátíð enda allt aðilar að BÍL, ólíkt RIFF sem væri það ekki. Um leið væri mjög óeðlilegt af meirihlutanum að endurskoða ekki ákvörðun faghópsins. Þessu mætti því hugsanlega líkja við nokkurs konar „hostile takeover“.

Ófaglegur faghópur

Áslaug hélt áfram og sagði að þrátt fyrir mótbárur um að nýja kvikmyndahátíðin sé sjálfstæð og tengist ekki Bíó Paradís þá verði ekki annað séð af rökstuðningi faghópsins, sem gerður hefur verið opinber, að þar sé einmitt vísað í rök fyrir því að fái nýja hátíðin styrkinn, styrki það rekstrargrundvöll bíósins verulega. Hér verði því ekki annað séð en að RIFF sé fórnað í því skyni að styrkja rekstrargrundvöll félags sem rekið er af nokkrum aðildarfélögum innan BÍL.

Júlíus Vífill Ingvarsson sagði að það væri einfeldni að halda að svokallaður faghópur sem fór yfir styrkumsóknir sé óháður og hlutlaus. Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs sýnir því engan áhuga að finna farsæla lausn í málinu. „Stjórnmálafólk getur ekki falið ákvarðanir sínar og ábyrgð bak við slíka hópa. Núverandi meirihluti hefur áður reynt að koma höggi á RIFF og nú á að ljúka kjörtímabilinu með því að ganga alla leið. Einn af okkar allra fremstu kvikmyndaleikstjórum kallaði þetta pólitískt sull og það er hægt að taka undir það,“ bætir Júlíus Vífill jafnframt við.

Borgarfulltrúar í pólitísku sulli

Þetta eru býsna alvarlega ásakanir á hendur faghópnum, í raun er verið að saka hann um annarlega hagsmuni. „Allt síðan 2004 hefur faghópur BÍL farið yfir umsóknir sem borist hafa í menningarpottinn. Á þessu kjörtímabili höfum við undantekningarlaust farið að tillögum faghópsins. Það er fullt traust á þetta verkferli og þá vinnu og þær tillögur sem faghópur hefur skilað til okkar. Það er líka núna,“ segir Einar Örn.

Spurður hvort borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu hugsanlega að nota þetta mál til að koma höggi á núverandi meirihluta segir Einar: „Mér finnst athyglisvert að þessi styrkveiting skuli setja eitthvað svona í gang núna. Það kemur engu höggi á meirihlutann. Það hefur ríkt algjör sátt um þetta ferli sem haft er við styrkúthlutanir og það er ekkert sem gefur til kynna með að eitthvað sé rangt í þessu ferli núna,“ segir Einar Örn.

Og hann segir ýmislegt sem kemur fram í máli borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins rangt. „Til dæmis það að núverandi meirihluti hafi reynt að koma höggi á RIFF. Það er rangt. Ég hef unnið með RIFF, það hafa komið fram athugasemdir um ýmsa hluti og ég, sem eftirlitsaðili hef tekið á því með RIFF. Það hefur verið ágætt samstarf við RIFF. Enda er það ekki til umræðu núna, heldur að það að tvær umsóknir um kvikmyndahátíð bárust og önnur fékk brautargengi, hin ekki. Það er það sem er til umræðu. Ef einhver er að tala um pólitískt sull, sem Júlíus Vífill er að vitna í, og hefur eftir leikstjóra, þá er það það sem borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru að standa í. Ef einhver er að sýna fjandsamlega yfirtöku á verkferli sem hefur verið í gangi í tíu ár gegnum vinnu faghóps BÍL, með því að gera hana tortryggilega, þá eru það þeir.“


Tengdar fréttir

Opið bréf til Reykjavíkurborgar vegna RIFF

Stjórn RIFF, sem skipuð var árið2013 að ósk Reykjavíkurborgar, harmar þá ákvörðun Menningar-og ferðamálaráðs að hætta styrkveitingu til Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík –RIFF eftir 10 ára farsælt samstarf um uppbyggingu hátíðarinnar á alþjóðavettvangi.

Rifist um RIFF

Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi segir faglega staðið að ákvörðuninni um að hætta að styrkja kvikmyndahátíðina og beina milljónunum annað.

Enn er rifist um RIFF

Hrönn Marinósdóttir gagnrýnir harðlega orð Einars Arnar er varða styrkveitingar Reykjavíkurborgar til kvikmyndahátíðar í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×