Erlent

Nauðgað samkvæmt úrskurði öldungaráðs

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmæli gegn nauðgunum hafa verið tíð á Indlandi undanfarið.
Mótmæli gegn nauðgunum hafa verið tíð á Indlandi undanfarið. Vísir/AP
Þrettán menn hafa verið handteknir Vestur-Bengal á Indlandi í tengslum við hópnauðgun, sem átti sér stað á mánudaginn var. Að sögn lögreglunnar var konunni nauðgað samkvæmt úrskurði frá öldungaráði þorpsins, sem hún býr í.

Konan er tvítug og liggur nú á sjúkrahúsi þungt haldin eftir ofbeldið.

Hún sagði lögreglu frá því að öldungaráðið í þorpinu hafi sektað hana fyrir að hafa átt í ástarsambandi við mann, sem aðhyllist önnur trúarbrögð.

Þegar fjölskylda hennar sagðist vera of fátæk til að geta greitt sektina, þá tók öldungaráðið ákvörðun um að í staðinn ætti að refsa henni með hópnauðgun.

Undanfarið ár hafa fréttir af hópnauðgunum vakið hörð viðbrögð á Indlandi. Stjórnvöld hafa að nokkru brugðist við með því að setja strangari lög. Meðal annars hefur refsing verið þyngt og málsmeðferð í nauðgunarmálum hraðað.

Þetta mál er frábrugðið hinum að því leyti að ráðist er á konuna samkvæmt úrskurði opinbers valds.

AP fréttastofan skýrir frá þessu, en í skeyti frá henni kemur einnig fram að öldungaráð skera iðulega úr um ýmis síðferðismál í þorpum sums staðar á Indlandi. Úrskurðir þeirra hafi ekki lagalega bindandi gildi, en eigi að síður mikil áhrif í þorpunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×