Innlent

Fjögur önnur börn búa á heimili meints mansalsfórnarlambs

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Fjögur önnur börn eru til heimilis á sama stað og sex ára gömul telpa sem Hæstiréttur úrskurðaði í gær að skyldi dvelja hjá fósturfjölskyldu á meðan alvarlegar ásakanir um vanrækslu eru til rannsóknar.

Telpan var flutt hingað til lands seinnihluta árs 2012, af móðurafa sínum, en samkvæmt upplýsingum frá Þuríði Halldórsdóttur, lögfræðingi afans, er um að ræða flóttafólk frá Haíti sem flúði hingað til lands eftir mannskæðan jarðskjálfta þar í landi. Við komuna hingað vísaði afinn fram gögnum þar sem tekið var fram að hann færi með forsjá telpunnar þar sem móðir hennar hefði látist í hamförunum. Fjölskyldan flutti inn til ættmenna sem búsett hafa verið hér á landi um nokkurt skeið á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Hæstiréttur staðfesti í gær að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis síns á meðan alvarlegar ásakanir um vanrækslu eru til rannsóknar. Grunur leikur á að afi hennar hafi flutt hana til Íslands með fölsuðum skilríkjum og til skoðunar eru ásakanir um að stúlkan gæti verið fórnarlamb mansals.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×