Innlent

"Það hjálpar okkur í gegnum sorgina að hjarta hans slær áfram“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sex koma til með að lifa vegna líffæragjafa Skarphéðins Andra Kristjánssonar, 18 ára karlmanns sem lést á gjörgæslu Landspítalans í gær, en hann lenti í bílslysi 12. janúar síðastliðinn. Fjölskylda Skarphéðins segir hann alltaf hafa verið staðráðinn í að gefa líffæri sín, ef til þess kæmi.

Skarphéðinn Andri var fæddur árið 1995, en hann lenti í bílsysi á Vesturlandsvegi við Fornahvamm í Norðurárdal fyrr í mánuðinum. Með honum í bílnum var kærasta hans, Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir sextán ára, sem lést samstundis.

Skarphéðinn slasaðist alvarlega í slysinu og háði erfiða baráttu sem lauk í gær.

Hann hafði sjálfur rætt um það við foreldra sína að ef eitthvað kæmi fyrir myndu aðrir fá að njóta líffæranna og í dag greindi móðir hans, Steinunn Rósa Einarsdóttir, frá því að sex einstaklingar kæmu til með að lifa vegna gjafa Skarphéðins, þar á meðal 16 ára drengur sem fengi hjarta hans.

„Þetta var það sem hann vildi alltaf og er okkur þess vegna mikil gleði í allri þessari sorg. Það hjálpar okkur að hann skuli vera að gefa, jafnvel þótt hann sé farinn,“ segir Steinunn Rósa.

Fjölskyldan ræddi líffæragjöf mikið sín á milli. Skarphéðinn og bræður hans voru allir sömu skoðunar, þeir vildu gefa líffæri ef til þess kæmi.

„Maður er í vissu áfalli þegar maður missir aðstandendur, en þá er einmitt gott að hafa talað um þetta. Við minntumst ekki bara á þetta einu sinni heldur ræddum þetta oft,“ segir Einar Sveinn Kristjánsson, bróðir Skarphéðins.

„Þetta er ljósið í myrkrinu. Þrátt fyrir að maður sé að missa bróður sinn, þá slær hjarta hans áfram einhverstaðar úti í heimi. Það hjálpar manni í gegnum sorgina,“ segir hann.

Fjölskylda Skarphéðins stendur fyrir minningarathöfn í Áskirkju klukkan átta í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.