Erlent

Sektaður um 140 milljónir fyrir að eiga of mörg börn

Jakob Bjarnar skrifar
Zhang Yimou er ekki aðeins öflugur á sviði kvikmyndagerðar heldur einnig hvað snýr að barneignum; of öflugur.
Zhang Yimou er ekki aðeins öflugur á sviði kvikmyndagerðar heldur einnig hvað snýr að barneignum; of öflugur. AP
Kínverski kvikmyndagerðarmaðurinn Zhang Yimou hefur verið sektaður um rúmar 140 milljónir fyrir að eiga of mörg börn.

Yimou hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna en hefur nú verið fundinn sekur, og sektaður, fyrir að brjóta stefnu kínverskra yfirvalda hvað varðar barneignir. Lengi vel kváðu lögin á um að kínverskir foreldrar mættu aðeins eignast eitt barn en reglunum var nýlega breytt í þá veru að séu menn einbirni, samkvæmt þeim lögum, er þeim heimilt að eignast tvö börn nú.

Zhang Yimou er þriggja barna faðir og telst eiga tveimur börnum of mikið. Það kemur fram í bréfi sem honum barst nýverið frá yfirvöldum en bréfið barst honum eftir að hann birti opið bréf þar sem hann baðst afsökunar á að hafa brotið barneignalögin kínversku. Þar viðurkenndu Zhang og kona hans Chen Ting að eiga tvo syni og dóttur.

Þetta er samkvæmt Xinhua, fréttaveitu kínverskra yfirvalda, en í máli Zhangs kemur fram að mikið sé fyrir því haft, með því að gera góðar myndir, að fólk muni eftir nafni manns sem kvikmyndagerðarmanns. Börn umfram kvóta hafi lagt alla þá vinnu í rúst. „Ég hef lært mína lexíu og mun vinna með hinu opinbera við að framfylgja barneignastefnunni.

Sektin miðast við áætlaðar tekjur kvikmyndagerðarmannsins, sem samkvæmt þessu eru umtalsverðar. Sektina verður Zhang að greiða innan þrjátíu daga frá dagsetningu umrædds bréfs. Talið er að eftirspurn eftir hans þekktustu myndum, sem eru „Red Sorghum“, „Raise the Red Lantern“ og „Hero“, muni dragast saman eftir þetta hneyksli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×