Erlent

Hollande enn í vandræðum vegna fregna um framhjáhald

Jóhannes Stefánsson skrifar
Franska tímaritið Closer segir Hollande hafa verið ótrúr Valérie Trierweiler
Franska tímaritið Closer segir Hollande hafa verið ótrúr Valérie Trierweiler AFP
Francois Hollande frakklandsforseti er enn í stökustu vandræðum vegna ítarlegrar umfjöllunar tímaritsins Closer um meint framhjáhald hans með leikkonunni Julie Gayet.

Hollande hefur sakað tímaritið um grófa aðför að einkalífi sínu og hefur látið í veðri vaka að hann muni lögsækja tímaritið.

Viðbrögð Hollande hafa ekki þótt skýra málið en hann hefur ekki svarað því með afgerandi hætti hvort hann hafi átt vingott við Gayet, og þannig verið ótrúr sambýliskonu sinni, Valérie Trierweiler.

Hollande hafði boðað til blaðamannafundar í næstu viku þar sem hann hugðist skýra stefnu sína í efnahagsmálum, en athygli franskra fjölmiðla beinist fyrst og fremst að einkalífi hans þessa dagana vegna málsins. Þeir bíða með eftirvæntingu til að sjá hvort hann muni nýta tækifærið til að skýra mál sitt á blaðamannafundinum eða hvort hann hyggist gefa út yfirlýsingu vegna málsins.

Hollande er með fádæmum óvinsæll forseti, en stuðningur við hann mældist 15% í könnun sem var framkvæmd í nóvember. Enginn forseti hefur mælst með jafn lítinn stuðning í hálfa öld í Frakklandi. Hollande er sósíalisti og hefur flæmt marga auðuga Frakka úr landi með efnahagsstefnu sinni, þar á meðal leikarann Gérard Depardieu.

BBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×