Erlent

200 flóttamenn drukknuðu í Nílarfljóti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk frá Suður-Súdan siglir yfir Nílarfljót. Myndin er tekin í síðustu viku.
Flóttafólk frá Suður-Súdan siglir yfir Nílarfljót. Myndin er tekin í síðustu viku. Nordicphotos/AFP
Tvö hundruð manna hópur flóttamanna frá Suður-Súdan drukknaði í Nílarfljóti í nótt. Fólkið var á bát sem sökk í fljótið. Flestir um borð voru konur og börn.

Átökin í Suður-Súdan eru hörðust í kringum borgina Bor, sem uppreisnarmenn hafa haft á valdi sínu. Tugir þúsunda hafa flúið þaðan á síðustu dögum með því að sigla yfir Nílarfljót á mistraustum bátum.

Stjórnarherinn í Suður-Súdan hefur gert harða hríð að uppreisnarmönnum í Bor þrátt fyrir að friðarviðræður standi nú yfir í nágrannaríkinu Eþíópíu.

Átökin hófust í desember, en þarna takast liðsmenn stjórnarhersins á við uppreisnarmenn og liðhlaupa undir forystu fyrrverandi varaforseta landsins.

Átökin hafa kostað meira en þúsund manns lífið og hrakið hundruð þúsunda af heimilum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×