Erlent

Gruna innbrotsþjófa um aðild að hvarfi Madeline McCann

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Madeline var rétt tæplega fjögurra ára gömul þegar hún hvarf.
Madeline var rétt tæplega fjögurra ára gömul þegar hún hvarf. Mynd/AFP
Þrír menn eru grunaðir af bresku lögreglunni um að hafa numið Madeline McCann á brott í maí 2007. Daily Mail greinir frá þessu.

Samkvæmt greiningu á símagögnum var gengi innbrotsþjófa á ferðinni nálægt þeim stað sem hún hvarf á um sama leyti.

Þessir þrír menn munu hafa hringst óeðlilega mikið á stuttu eftir að hvarf Madeline var tilkynnt. Daily Mail segir lögregluna telja að þessir innbrotsþjófar, þar á meðan einn Portúgali, hafi rænt að minnsta kosti eitt heimili þar sem barn var statt í húsinu.

Foreldrar þess barns sem voru fyrir utan húsið hlupu inn en þá höfðu þjófarnir stungið af.

Portúgalska lögreglan hafði ekki talið að þessi innbrot hefðu neitt með hvarf Madeline að gera en breskir rannsóknarlögreglumenn segja að þessi yfirsjón portúgalskra samstarfsmanna sinna sé til skammar.

Lögreglan rannsakar nú hverjir það voru sem áttu þessa síma til að komast að einhverri niðurstöðu í málinu og telur mögulegt að þjófarnir hafi fyllst skelfingu og numið Madeline á brott með sér.

Rannsóknin á hvarfi Madeline hefur nú þegar kostað Scotland Yard lögregluna í Bretlandi yfir 6 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×