Erlent

Segir Obama aldrei hafa haft trú á Afganistanstríðinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gates ásamt Obama þegar sá fyrrnefndi hætti sem varnarmálaráðherra.
Gates ásamt Obama þegar sá fyrrnefndi hætti sem varnarmálaráðherra. Nordicphotos/AFP
Robert Gates, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, gagnrýnir Barack Obama forseta fyrir að hafa aldrei haft neina trú á stríðinu í Afganistan.

Þetta segir repúblikaninn Gates í nýrri bók þar sem hann rifjar upp tímann þegar hann var varnarmálaráðherra í fjögur og hálft ár, fyrst á síðustu árum ríkisstjórnar flokksbróður síns George W. Bush og síðan á fyrstu árum ríkisstjórnar demókratans Obama.

Gates tekur fram í bókinni að hann væni Obama ekki um að hafa ekki staðið við bakið á bandarískum hermönnum, sem sendir voru til Afganistan. Obama hafi bara ekki haft neina trú á því verkefni, sem þessum hermönnum var falið.

Hann rifjar meðal annars upp fundarhöld í mars árið 2011, þar sem hann segist hafa hugsað með sér: „Forsetinn treystir ekki yfirmanni herafla síns, hann þolir ekki Karsaí (forseta Afganistans), hann hefur enga trú á sinni eigin hernaðaráætlun og lítur ekki á þetta sem sitt stríð. Í hans augum snýst þetta allt um að komast burt.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×