Erlent

Strokufangi bað lögreglu að sækja sig vegna kulda

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Robert Vick var klæddur í þennan þunna galla og treysti sér ekki í meiri kulda.
Robert Vick var klæddur í þennan þunna galla og treysti sér ekki í meiri kulda.
Strokufanginn Robert Vick gafst upp á flóttanum og hafði samband við lögreglu vegna mikils kulda sem gengur nú yfir Bandaríkin. Vick strauk úr litlu fangelsi í Lexington í Kentucky-fylki á sunnudag. Á mánudeginum var hann kominn með nóg af þessu óvenjulega kalda loftslagi og gekk inn á mótel þar sem hann óskaði eftir því að vera sóttur af lögreglunni.

Hann sagði afgreiðslumanninum að hann væri búinn að fá nóg af þessum heimskautakulda. Eftir að lögreglan sótti hann var Vick sendur í læknisskoðun. Hann var eingöngu klæddur í þunnan fangabúning og vindkviður á staðnum náðu næstum 30 stiga frosti á Celsíuskvarða.

Vick var heill heilsu og hefur nú verið komið aftur í fangelsið sitt. Ekkert hefur verið gefið út um hvort dómur hans verði lengdur fyrir flóttatilraunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×