Innlent

Æðstu menn Páfagarðs skoða Landakotsmál

Linda Blöndal skrifar
Æðstu embættismenn í Páfagarði hafa fundað um mál þeirra sem hafa lýst ofbeldi gagnvart sér í Landakotsskóla á árum áður. Mikil ósátt er hér á landi um meðferð Kaþólsku kirkjunnar hér á landi á málinu og lýstu ráðendur í Vatíkaninu áhyggjum sínum af því og munu skoða það áfram.

Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði með aðsetur í Genf bar upp mál þolendanna fyrir ráðamenn þar ytra í desember í fyrra og segir fullt tilefni til að gera það. Hann segist munu halda áfram að gera skilaboð þeirra fyrir menn Páfans. Á fjórða tug einstaklinga þurfu að þola kynferðislegt eða andlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar hér á landi. Kirkjan telur málinu lokið en hefur ekki viljað biðja fórnarlömbin opinberlega afsökunar né viðurkenna bótarétt þolendanna nema fyrir einn einstakling. Fólkinu voru þó boðnar greiðslur frá 80 til 300 þúsund krónur. Mest var þeim manni boðið sem sagði frá fjögurra ára grófu kynferðislegu ofbeldi.

Erindi frá þolendum eru enn að berast til Rómar og ekki ljóst enn hve mörg þau verða að lokum, sagði Martin við Stöð tvö í dag. Hann átti fund í febrúar með Pétri Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi þar sem hann greindi frá viðræðum sínum við ráðamenn í Páfagarði en þar ítrekaði biskup að málinu væri lokið af kirkjunnar hálfu.  

Bæði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra hafa lýst þeirri skoðun sinni að taka eigi málið hérlendis aftur upp þar sem sanngirni hafi ekki gætt gagnvart þolendum í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×