Innlent

Hafði afskipti af um þúsund ökutækjum á menningarnótt

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var í gær.
Áætlað er að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var í gær. Vísir/Andri Marínó
Fjöldi mála komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á menningarnótt en lögregla áætlar að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lögregla hafi verið með mikinn viðbúnað og haft í nógu að snúast en útköllum hafi fjölgað þegar á leið nóttina. „Starfsmenn umferðardeildar höfðu t.d. í mörg horn að líta en tólf umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Að venju bar nokkuð á að ökutækjum væri illa og/eða ólöglega lagt í og við miðborgina, en höfð voru afskipti af um 1.000 ökutækjum vegna þessa.  Að öllu samanlögðu verður þó ekki annað sagt en að umferðin hafi gengið bara bærilega á menningarnótt, ekki síst þegar kom að því að greiða fyrir umferð úr miðborginni að lokinni flugeldasýningu.“

Afskipti voru höfð af fólki vegna ölvunar og fíkniefnaneyslu, en hafi lögregla tekið áfengi af unglingum og hellt því niður. „Er leið á nóttina fóru að berast nokkrar kvartanir vegna hávaða í heimahúsum, en slíkt er viðbúið um helgar og var ekki meira en við mátti búast. Fangageymslur lögreglustöðvarinnar voru fullnýttar í nótt, en ástand þeirra sem þar gistu var heldur bágborið eins og gefur að skilja.“

Lögregla segir samstarfið við björgunarsveitarmenn hafa gengið mjög vel og færir hún hlutaðeigandi aðilum færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina. „Á heildina litið lítur lögreglan svo á að menningarnótt hafi farið ágætlega fram. Líkt og áður notaði lögreglan fésbókarsíðu embættisins til að miðla ýmsum upplýsingum á menningarnótt, sérstaklega þó eru sneru að umferðarmálum, og var því vel tekið.“

Ölvunar- og fíkniefnaakstur

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu á menningarnótt, en einn þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi fyrir fíkniefnaakstur. „Sá var stöðvaður á Kjalarnesi, en um var að ræða tæplegan tvítugan pilt. Annar ungur piltur var tekinn í Garðabæ, en sá ók ölvaður á umferðarmannvirki. Karl á þrítugsaldri var líka tekinn fyrir ölvunarakstur í Hafnarfirði og loks var maður á fimmtugsaldri tekinn fyrir sömu sakir í Reykjavík, en viðkomandi var stöðvaður á Sæbraut skömmu áður en flugeldasýning menningarnætur hófst.“

Líkamsárásir

Í tilkynningu lögreglu segir að um tíu líkamsárásir hafi verið tilkynntar til lögreglu eftir menningarnótt. „Nær allar eru taldar minniháttar, en þær áttu sér stað í miðborginni í nótt. Oftar en ekki var um tilefnislausar líkamsárásir að ræða, en þær áttu sér stað bæði innan og utanhúss, m.a. á dansgólfi skemmtistaða. Í einhverjum tilvikum voru deilur manna til komnar vegna kvennamála. Um miðnætti var björgunarsveitarmaður, sem var að aðstoða lögreglumenn á vettvangi, skallaður í andlitið, en árásarmaðurinn var handtekinn og fluttur í handjárnum á lögreglustöð. Þar hélt hann áfram að láta ófriðlega og hótaði sömuleiðis að skalla lögreglumenn. Eitt rán var tilkynnt til lögreglu á menningarnótt, en sími og veski var tekið af manni í miðborginni síðla nætur.“

Fíkniefnamál

„Nokkur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á menningarnótt, en hún lagði hald á bæði  kannabisefni og einnig lítilræði af amfetamíni og kókaíni. Í einu málanna fundust kannabisefni í bifreið og viðurkenndi farþegi í bílnum aðild sína að málinu. Lögreglan framkvæmdi eina húsleit á menningarnótt, en í íbúð fjölbýlishúss í borginni fundust fíkniefni og hnúajárn,“ að því er segir í fréttatilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×