Innlent

Skipstjórinn sofnaði undir stýri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Strandið varð við Skagströnd.
Strandið varð við Skagströnd. Vísir/Stefán
Skipstjóri fiskiskipsins Sædísar Báru GK 88 sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að skipið strandaði á grynningum við Skagaströnd í júlí í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefnda sjóslysa.

Strandinu er lýst á eftirfarandi hátt í skýrslunni:

„Sædís Bára var á leið til Skagastrandar úr róðri í Drangaál og hafði skipstjóri sett stefnu laust sunnan við Spákonufellshöfða.Um kl. 06:30 strandaði báturinn á grynningum inn af Árbakkasteini sem er í sunnanverðri innsiglingunni á stað 65°48,58N og 020°18,45V. Eftir að aðstæður höfðu verið skoðaðar og engin leki fannst hafði skipstjórinn samband við Björgunarsveitina Strönd sem ferjaði skipverjana í land á meðan beðið var eftir aðfalli.“

Fram kemur í skýrslunni að skipstjórinn hafi sofnað vegna þess að hann hafði lítið hvílst og illa dagana fyrir strandið. Í sérstakri ábendingu í nefndaráliti í lok skýrslunnar segir:

„Mörg mál sambærileg þessu hafa borist nefndinni á liðnum árum þar sem stjórnandi sofnar á siglingavakt oft á tíðum vegna langvinnrar þreytu og óhóflegrar vöku. Nefndin beinir því til skipstjórnarmanna að huga vel að mikilvægi hvíldar til að koma í veg fyrir að þeir sofni við stjórn. Þá hvetur nefndin stjórnendur til að nota allan þann viðvörunarbúnað sem getur komið í veg fyrir atvik sem þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×