Erlent

Með 7,5 sentimetra blóðsugu í nefinu

Atli Ísleifsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Breskur bakpokaferðalangur fann 7,5 sentimetra langa blóðsugu í nefi sínu sem hafði lifað þar í rúman mánuð eftir ferðalag til Suðaustur-Asíu.

Daniela Liverani frá Edinborg hafði reglulega fengið blóðnasir síðan hún kom aftur heim til Skotlands en gerði ráð fyrir að þær mætti rekja til sprungnar æðar eftir bifhjólaslys.

Hin 24 ára Liverani tók eftir blóðsugunni þegar hún var í sturtu á fimmtudag og gerði sér þá grein fyrir að dökkleita fyrirbærið í nefinu var í raun og veru lifandi dýr.

Sjúkrahússtarfsmenn notuðust við tangir til að losa dýrið úr nefi Liverani, en hún gerir ráð fyrir að blóðsugan hafi gert sig heimakomna í nefi hennar í Víetnam eða Kambódíu. Segir hún að jafnvel þegar hún fann fyrir einhverju fara upp og niður aðra nösina hafi hún gert ráð fyrir að um blóðkekki væri að ræða.

„Fyrstu viðbrögðin eru ekki: „Guð minn góður, það er augljóslega blóðsuga í andlitinu mínu“,“ sagði Liverani i samtali við BBC. Liverani segist hafa gefið blóðsugunni nafnið „Mr Curly“, en hún er nú dauð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×