Fótbolti

Brasilía og Kólumbía saman í riðli næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fékk harða meðferð frá Kólumbíumönnum á HM.
Neymar fékk harða meðferð frá Kólumbíumönnum á HM. Vísir/Getty
Brasilíumenn verða í riðli með Kólumbíu í Suður-Ameríkukeppninni í fótbolta sem fram fer í Síle næsta sumar en það var dregið í riðli í gær.

Tólf lið keppa í Suður-Ameríkubikarnum, Copa America, næsta sumar, tíu þjóðir frá Suður-Ameríku og svo Mexíkó og Jamaíka sem var boðið á mótið að þessu sinni. Mótið hefst 11. júní.

Brasilíumenn slógu Kólumbíu út í átta liða úrslitunum á HM í Brasilíu síðasta sumar en Kólumbíumenn voru öðrum fremur spútniklið mótsins. Neymar meiddist illa í leiknum og spilaði ekki meira á HM. Það er því örugglega ekki hlýtt á milli þessara liða.

Brasilía og Kólumbía eru í C-riðlinum með Perú og Venesúela.

Argentína er í B-riðli með Úrúgvæ, Paragvæ og Jamaíku. Úrúgvæ og Argentína léku til úrslita í Suður-Ameríkukeppninni árið 2011.

Gestgjafar Síle eru í A-riðlinum með Mexíkó, Ekvador og Bólivíu.

Úrúgvæ á titil að verja en Luis Suarez, leikmaður Barcelona, má ekki spila með Úrúgvæ á mótinu þar sem að hann er enn að taka út landsleikjabann eftir að hafa bitið Giorgio Chiellini á HM í Brasilíu síðasta sumar.

Tvö efstu liðin komast áfram í átta liða úrslit ásamt þeim tveimur liðum sem ná besta árangri í þriðja sæti síns riðils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×