Innlent

80 prósent hafa notað farsíma undir stýri

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá maí 2010 hefur þeim fækkað sem tala í síma undir stýri en þeim sem skoða internetið undir stýri hefur fjölgað.
Frá maí 2010 hefur þeim fækkað sem tala í síma undir stýri en þeim sem skoða internetið undir stýri hefur fjölgað. vísir/getty
MMR kannaði á dögunum farsímanotkun Íslendinga undir stýri síðastliðna 12 mánuði. Frá maí 2010 hefur þeim fækkað sem tala í síma undir stýri en þeim sem skoða internetið undir stýri hefur fjölgað.

Þannig fækkaði þeim nokkuð sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðu 64,1% hafa talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar, borið saman við 71,0% í maí 2010.

Aftur á móti fjölgar þeim sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri til að fara á internetið (t.d. skoða fréttasíður eða samfélagsmiðla). Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 10,0% hafa notað farsíma undir stýri til að fara á internetið, borið saman við 3,5% í maí 2010.

mynd/mmr
Þeim fækkar einnig sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa/lesa sms, tölvupóst eða önnur skilaboð. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 21,1% hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa/lesa skilaboð, borið saman við 26,4% í maí 2010.

Nokkur munur á notkun farsíma undir stýri eftir kyni, aldri og stuðningi við stjórnmálaflokka

Á heildina litið voru karlar líklegri en konur til að segjast hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 85,5% karla hafa notað farsíma undir stýri, borið saman við 73,3% kvenna.

Þeir sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) voru mun ólíklegri en þeir sem yngri eru til að hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði. Þannig sögðust 61,3% þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum ekki hafa notað síma undir stýri, borið saman við 12,2% þeirra sem voru á aldrinum 30-49 ára.

43,2% þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 18-29 ára sögðust hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa/lesa sms, tölvupóst eða önnur skilaboð síðastliðna 12 mánuði.

Einstaklingar 18 ára og eldri voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR en þeir voru 1042 talsins, 18 ára og eldri. Hringt var út dagana 21. til 25. nóvember.

mynd/mmr



Fleiri fréttir

Sjá meira


×