Innlent

Sakar forsvarsmann Landsnets um lygar

Sveinn Arnarsson skrifar
Raforkuflutningar til Eyjafjarðar eru í molum og úrbóta er þörf.
Raforkuflutningar til Eyjafjarðar eru í molum og úrbóta er þörf.
Fráfarandi formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) sakaði forstjóra Landsnets um að fara með ósannindi þegar hann sagði sveitarfélögin hafa dregið lappirnar við að koma betri byggðalínu til Eyjafjarðar.

„Það er grátlegt þegar fulltrúar opinberra einokunarfyrirtækja láta hafa svona eftir sér,“ sagði Oddur Helgi Halldórsson, fráfarandi formaður AFE og bæjarfulltrúi á Akureyri síðastliðna tvo áratugi, í ræðu á ársfundi AFE á föstudag.

Þetta var síðasta embættisverk Odds Helga þar sem hann hætti í bæjarstjórn eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí síðastliðins. Í ræðu sinni sagði hann að málefni byggðalínunnar hefðu svo sannarlega ekki strandað á sveitarstjórnum á Eyjafjarðarsvæðinu. Fréttablaðið birti í síðustu viku frétt um að raforkuflutningar til Eyjafjarðar væru í molum.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sagði þessi mál vera í ákveðinni biðstöðu. Á teikniborðinu væri um tólf til fimmtán milljarða framkvæmd af þeirra hálfu til að styrkja orkuflutninga til Eyjafjarðar um nýja Blöndulínu, svokallaða Blöndulínu þrjú. Hins vegar stæði allt fast í skipulagsvinnu þeirra sveitarfélaga sem línan mun fara í gegnum. Þessu er Oddur Helgi ósammála.

Oddur Helgi Halldórsson Fráfarandi formaður AFE.Mynd/Rúnar Þór
„Eitt verð ég að koma inn á og mótmæla, það er umfjöllun í fjölmiðlum um orkuleysi fjarðarins, þar sem Landsnet kennir sveitarfélögunum um. Ég segi hreint út að það er ekki satt að það sé okkur sveitarfélögunum að kenna. Sveitarfélögin á svæðinu hafa allan tímann verið áfram um það að aðstoða landsnet við að leggja þessar línur,“ sagði Oddur í ræðu sinni.

Hann sagði Landsnet ekki hafa léð máls á samstarfi við sveitarfélögin um lausnir, heldur hafi barið höfðinu við steininn og viljað gera þetta algerlega eftir sínu höfði.

„Ég fullyrði, til dæmis hvað viðkemur Akureyrarbæ, að ekki hefur strandað á okkur að finna leið fyrir þá fyrir jarðstreng í gegnum bæjarlandið. Það er grátlegt þegar fulltrúar opinberra einokunarfyrirtækja láta hafa svona eftir sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×