Erlent

Skutu tveimur eldflaugum á loft

Brjánn Jónasson skrifar
Maður fylgist með sjónvarpsútsendingu frá eldflaugarskotinu í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu.
Maður fylgist með sjónvarpsútsendingu frá eldflaugarskotinu í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. Fréttablaðið/AP
Stjórnvöld í Norður-Kóreu skutu á loft tveimur skammdrægum eldflaugum í gær. Eldflaugarnar höfnuðu í hafinu austur af landinu. Stjórnvöld sögðu í síðustu viku að þróun á nýrri gerð eldflauga væri lokið.

Heimildarmaður AP-fréttastofunnar innan hers Suður-Kóreu segir að svo virðist sem flugskeytin hafi verið skammdræg Scud-flugskeyti, sem voru hönnuð í Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu nota gjarnan heræfingar til að senda alþjóðasamfélaginu skilaboð. Stjórnmálaskýrendur hafa því sett eldflaugaskotin í gær í samhengi við gagnrýni stjórnvalda í Norður-Kóreu á meintar æfingar stórskotaliðs hers Suður-Kóreu nærri eyjaklasa sem ríkin deila um á hafsvæðinu austur af Kóreuskaga.

Aðrir hafa bent á að í vikunni muni Xi Jinping, forseti Kína eina eiginlega bandamanns Norður-Kóreu, eiga fund með Park Geun-hye, forseta Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×