Innlent

Ýtu- og gröfukarlar fágætir gamlingjar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jarðverktakar kvarta nú undan skorti á vönum ýtu- og gröfumönnum. Verkstjóri hjá Suðurverki segir að meðalaldur vélamanna sé orðinn mjög hár. Einn fjölmennasti vinnustaðurinn í jarðvinnugeiranum um þessar mundir er hjá Suðurverki í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum en þar starfa um 45 manns.

Gísli Eysteinsson verkstjóri segir að erfiðlega hafi þó gengið að fá vana vélamenn á tæki eins og jarðýtur og gröfur. Hann segir að þetta sé mikil vinna og oft hafi gleymst í kjaraviðræðum að þetta sé ekki það starf sem menn sæki orðið í.

„Það er mjög lítil endurnýjun í þessum jarðvinnugeira,” sagði Gísli í viðtali á Stöð 2. Einhver kastaði því fram að meðalaldurinn hér væri 57 ár, - Gísli segir að hann sé að minnsta kosti mjög hár.

Jarðverktakar voru sá hluti atvinnulífsins sem máttu þola einna mestan samdrátt í hruninu en nú þegar farið er að birta til virðist erfitt að fá mannskap til starfa.

„Það er ekkert mikið af vönum mannskap í þessu,” segir Gísli.

-En hvað varð þá um allan mannskapinn sem var í virkjana- og jarðvegsframkvæmdum þegar best lét?

„Ég veit það ekki. Eitthvað töluvert af þessu fólki er farið til Noregs í vinnu og aðrir komnir í einhverja aðra vinnu.”





Fleiri fréttir

Sjá meira


×