Að minnsta kosti 47 fórust þegar sprenging varð í olíuleiðslu í borginni Qingdao í norðausturhluta Kína í gærkvöldi en leki mun hafi komið upp í leiðslunni fyrr um morguninn.
Alls eru 136 manns alvarlega slasaðir á spítala í borginni eftir sprenginguna en slysið mun vera það alvarlegasta í mörg ár í Kína.
Viðgerðamenn hófust strax handa við að stöðva lekann en sprengingin var óumflýjanleg.
Gríðarlegar skemmdir urðu í kringum svæðið og þurfti að flytja 18.000 manns í öruggt skjól.
Rafmagnslaust er í hluta borgarinnar og einnig hefur gasleiðslum verið lokað. Skemmdir hafa orðið á vatnsleiðslum í stórum hluta borgarinnar og því ástandið alvarlegt í Qingdao.
Í yfirlýsingu frá kínverska olíufyrirtækinu Sinopec kemur fram að málið verði rannsakað ítarlega og harmar fyrirtækið gríðarlega atburðinn en umrædd olíuleiðsla var í eigu Sinopec.
40.000 manns hafa fengið aðstoð eftir sprenginguna í borginni með matargjöfum og kertum vegna rafmagnsleysis.
Á fimmta tug létust í olíusprengingu í Kína
Stefán Árni Pálsson skrifar
