Erlent

Bjargað eftir þrjá daga á fleka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Delord hífður um borð úr björgunarbátnum.
Delord hífður um borð úr björgunarbátnum. Nordicphotos/AFP
Skemmtiferðaskip á leið sinni til Suðurskautslandsins tók á sig 1800 kílómetra krók til þess að bjarga siglingarmanni í Suðurhöfum í gær. Skúta mannsins varð fyrir skemmdum suðvestur af áströlsku eyjunni Tasmaníu á föstudag.

Alain Delord er 63 ára siglingakappi sem ætlaði að sigla einn og óstuddur hring um jörðina. Hann lagði af stað í október en babb kom bókstaflega í bátinn á föstudag. Hann hafði dúsað tvær nætur á flekanum en skemmtiferðaskipið kom Delord tilbaka þegar farið var að skyggja í gærkvöldi.

Alain Delord ásamt farþegum skemmtiferðaskipsins Orion.Nordicphotos/AFP
Farþegum á skemmtiferðaskiptinu Orion var ekki sérstaklega skemmt þegar þeim var tilkynnt að gera þyrfti breytingu á áætlun skipsins til þess að koma manninum til bjargar. 53 klukkustundum og 1800 kílómetrum síðar var Delord þó hífður um borð í skipið við mikil fagnaðarlæti farþeganna.

Vel hefur farið um Frakkann sem þótti merkilega vel á sig kominn. Honum var komið fyrir í fimm stjörnu svítu á skipinu og hefur gætt sér á lambakjöti og sötrað rauðvín að sögn skipstjórans á Orion.

Nánar má lesa um björgunina á vefsíðu ástralska miðilsins news.com.au.

Alain Delord á skútu sinni.Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×