Erlent

Afi togaði hákarl frá barnahópi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
62 ára gamall ferðamaður slapp með skrekkinn þegar hann togaði í hákarl sem synti í grunnu vatni við strönd Ástralíu í gær.

Ungir sem aldnir voru við leik á ströndinni þegar gestinn óvelkomna bar að garði. Þrátt fyrir viðvaranir gæslumanna um að engin afskipti skildi hafa af hákarlinum hélt maðurinn, Paul Marshallsea frá Wales, aftur af hákarlinum. Litlu munaði reyndar að illa færi þegar afinn missti tak sitt á hákarlinum sem reyndi að bíta hann að sögn Marshallsea.

„Hann rétt missti af mér, hann var hársbreidd frá fæti mínum. Hákarl sem mínútu áður var ljúfur sem lamb tók næstum af mér fótinn," sagði Marshallsea í viðtali við Daily Mirror.

„Það er grunnt á um sex metra svæði þar sem hákarlinn hafði gert sig heimankominn. Það voru fjölmörg börn og ungabörn að busla í vatninu," sagði Marshallsea og bætti við að eðlishvöt hans hefði tekið yfir. „Það hefði getað farið mjög illa," sagði Walesverjinn.

Atvikið átti sér stað á Bulcock-ströndinni um 88 kílómetra norðan af Brisbane. Talið er að hákarlinn hafi synt í átt að landi vegna meiðsla eða veikinda. Hann hafi því verið taugaóstyrkur og átt erfitt með að átta sig á aðstæðum.

Segja má að Marshallsea beri svo sannarlega nafn með rentu. Væri eftirnafni hans snúið upp á íslensku mætti kalla hann Pál „sjávarstjóra".

Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×