Fótbolti

Þóra fékk fimm mörk á sig í Ástralíu | Kemst ekki í úrslitakeppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þóra Björg í leik með Western Sydney.
Þóra Björg í leik með Western Sydney. Nordic Photos / Getty Images
Þóra Björg Helgadóttir og félagar hennar í Western Sydney Wanderers töpuðu illa fyrir Canberra United í áströlsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, 5-0.

Þóra lék allan leikinn í marki Sydney og mátti sækja boltann fimm sinnum í eigið net. Hún varði þó nokkrum sinnum ágætlega í leiknum en yfirburðir Canberra voru miklir, eins og gefur að skilja.

Sydney er í sjötta sæti deildarinnar af átta liðum með þrettán stig. Canberra komst upp í fjórða sætið með sigrinum en liðið er nú með átján stig.

Fjögur efstu lið deildarinnar komast í úrslitakeppni sem fer fram í lok mánaðarins, þar sem spilað verður um meistaratitilinn. Sydney á ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Þóra leikur því sinn síðasta leik með Sydney Wanderers gegn Sydney FC á laugardaginn næsta. Þá heldur hún aftur til Svíþjóðar þar sem hún er á mála hjá Malmö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×