Paulo Pinheiro, formaður rannsóknarnefndar um mannréttindabrot í Sýrlandi, segir að alþjóðasamfélagið verði nú að grípa inn í og stöðva ofbeldið í Sýrlandi.
„Heimsbyggðin verður að heyra hróp fólksins – stöðvið ofbeldið, stöðvið blóðbaðið, komið í veg fyrir eyðileggingu Sýrlands,“ sagði hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.
Hann segir almenna borgara helstu fórnarlömb ofbeldisins en ofbeldismennirnir komist upp með ódæðin refsilaust.
„Stríðið er í pattstöðu á meðan báðir aðilar standa í þeirri blekkingu að hernaðarsigur sé mögulegur,” segir Pinheiro.
Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í tvö og hálft ár og kostað meira en hundrað þúsund manns lífið.
Pinheiro segir að 4,5 milljónir manna séu á vergangi innan landamæra Sýrlands. Átján milljónir séu enn heima hjá sér en af þeim séu meira en 2,5 milljónir atvinnulausar.
Stöðvið eyðileggingu Sýrlands
Guðsteinn Bjarnason skrifar
