Erlent

Kínastjórn sakar Abe um hræsni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, fylgir í kjölfar shinto-prests í Yasukuni-hofinu í Tókýó á fimmtudaginn var.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, fylgir í kjölfar shinto-prests í Yasukuni-hofinu í Tókýó á fimmtudaginn var. Nordicphotos/AFP
Utanríkisráðuneytið í Kína segir að Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sé ekki lengur velkominn til Kína eftir að hann heimsótti japanskt hof, þar sem japanskar stríðshetjur eru heiðraðar.

„Hræsni Abes þegar hann segist setja samskiptin við Kína í forgang og geri sér vonir um viðræður hefur verið nú afhjúpuð að fullu,“ sagði Qin Gang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

„Abe þarf nú að viðurkenna mistök sín gagnvart stjórnvöldum og almenningi í Kína, losa sig við fortíðina og byrja upp á nýtt,“ sagði Qin, og tók fram að Abe sé ekki lengur velkominn til Kína og engar viðræður geti komist á dagskrá.

Abe heimsótti nýverið Ysukuni-hofið í Tókýó, þar sem heiðruð er minning 2,5 milljóna japanskra hermanna sem látist hafa í stríði. Þar á meðal eru margir verstu stríðsglæpamenn Japana frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar, en Japan hafði þá hertekið bæði Kóreu og hluta Kína og farið þar fram af mikilli grimmd.

Japanskir ráðamenn hafa áður vakið mikla reiði meðal Kóreumanna og Kínverja með því að heimsækja þetta hof.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×