Erlent

Obama sendir hergögn til uppreisnarhópa í Sýrlandi

Nanna Elísa skrifar
Sýrlenskir uppreisnarhópar þiggja hernaðaraðstoð frá Bandaríkjamönnum. Sameinuðu þjóðirnar segja 93.000 manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni.
Sýrlenskir uppreisnarhópar þiggja hernaðaraðstoð frá Bandaríkjamönnum. Sameinuðu þjóðirnar segja 93.000 manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni.
Bandaríkin Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að veita uppreisnarhópum í Sýrlandi beina hernaðaraðstoð þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sínar um að gera það ekki. Markar þetta stefnubreytingu í þátttöku Bandaríkjamanna í borgarastyrjöldinni, sem hefur staðið í 2 ár, en þeir halda því fram að þeir hafi áreiðanlegar heimildir fyrir því að efnavopnum hafi verið beitt af sýrlenskum stjórnvöldum og valdið dauða 100 til 150 manns. Barack Obama segir þessa beitingu efnavopna hafa gerbreytt stefnu sinni en bandarísk stjórnvöld höfðu áður aðeins veitt sýrlenskum uppreisnarmönnum aðstoð í formi herþjálfunar og sent til þeirra mat- og lyfjabirgðir.

Sýrlensk stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem kom fram að ásakanir bandarískra stjórnvalda væru byggðar á lygum og var því haldið fram að Obama notaði ósannar upplýsingar í því skyni að réttlæta hernaðaraðstoðina. Rússnesk stjórnvöld taka í sama streng en Yuri Ushakov, aðstoðamaður Putin í utanríkismálum, segir gögn bandarískra stjórnvalda ekki sannfærandi. Hann segir jafnframt að hernaðaraðstoð sem þessi gæti haft neikvæð áhrif á tilraunir til friðarviðræðna milli hinna stríðandi fylkinga. Sameinuðu þjóðirnar sögðu fyrr í vikunni að 93.000 manns hefðu nú látist í borgarastyrjöldinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×