Erlent

Geta njósnað um samtöl á Facebook í rauntíma

Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hefur aðgang að leynilegu forriti sem gerir starfsmönnum kleift að fylgjast með öllum samskiptum fólks á internetinu.

Forritið heitir X-Keyscore og greindi breska blaðið The Guardian frá tilvist þess í gærkvöldi, eftir að hafa fengið gögn frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden.

Blaðið segist hafa undir höndum leiðarvísi fyrir forritið og þar komi fram að það sé fullkomnasta njósnaforrit sem þjóðaröryggistofnunin hafi undir höndum.

Með því er hægt að ná í upplýsingar um nánast allt sem fer fram á internetinu, án þess að fá heimild frá dómara. Starfsmennirnir þurfa einungis að gefa stutta skýringu á því hvers vegna þeir leita að þessum upplýsingum í forritinu og er beiðnin síðan afgreidd sjálfvirkt - af forritinu sjálfu.

Ef starfsmennirnir hafa netfang, sem skráð er hjá bandarískum netþjóni eins og til dæmis Gmail.com, geta þeir skoðað allt sem þar stendur. Þá geta þeir jafnvel fylgst með spjalli tveggja einstaklinga á samskiptasíðunni Facebook í rauntíma. Ef starfsmennirnir hafa vitneskju um nafn viðkomandi hafa þeir aðgang að öllu sem hann gerir á internetinu - jafnvel séð hvaða heimasíður hann hefur heimsótt.

Í fyrsta viðtalinu við Edward Snowden, sem starfaði hjá þjóðaröryggisstofnuninni, í byrjun júní sagði hann frá tilvist forritsins. Sagði hann að frá skrifborði sínu gæti hann fylgst með hverjum sem er, allt frá alríkisdómurum til forsetans, - eina sem hann þyrfti væri netfang viðkomandi.

Margir töldu hann vera að ýkja og sagði meðal annars þingmaður í leyniþjónustunefnd bandaríska þingsins að hann væri einfaldlega að ljúga. Samkvæmt gögnunum sem The Guardian birti í gær renna þau stoðum undir lýsingar Snowdens fyrr í sumar.

Í tilkynningu frá þjóðaröryggisstofnunni, sem birt er neðst í frétt The Guardian, segir þeir að Snowden og aðrir almennir starfsmenn hafi ekki aðgang að forritinu.

Strangar verklagsreglur séu um það hvenær forritið sé notað - og það sé einna helst notað gegn einstaklingum sem teljast hættulegir bandarískum ríkisborgurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×