Erlent

Flutningabifreið stolið með geislavirkum búnaði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hluti geislavirka búnaðarins sem stolið var í Mexíkó.
Hluti geislavirka búnaðarins sem stolið var í Mexíkó. Mynd/AP
Flutningabifreið með stórhættulegan geislavirkan tækjabúnað og önnur geislavirk efni hefur verið stolið í Mexíkó. Mikil leit var gerð að bifreiðinni víða í Mexíkó í gær.

Búnaðurinn var notaður á sjúkrahúsi við geislameðferð á krabbameinssjúklingum. Hann var þó ekki lengur í notkun því nýr tækjabúnaður var kominn í staðinn.

Bifreiðinni var stolið af bensínstöð í Tepojaco, litlu bæjarfélagi í Hidalgo-héraði skammt norðan við Mexíkóborg. Verið var að flytja búnaðinn frá Tijuana til geymslu fyrir kjarnorkuúrgang.

Stjórnvöld segja líklegast að þjófarnir hafi ekki haft minnstu hugmynd um hvað verið var að flytja. Þeir voru hvattir til að að koma bifreiðinni sem allra fyrst í hendur yfirvalda og gæta þess vel að skemma hvorki né opna blýhylkið.



Búnaðurinn er geymdur í innsigluðu blýhylki en sagður lífshættulegur og geti orðið nærstöddu fólki að bana á stuttum tíma, ef hylkið er rofið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×