Með nýjum þjálfara koma nýjar áherslur. Per-Mathias Högmo kynnti í gær leikmenn sína fyrir nýjasta meðlimi þjálfarateymisins. Sálfræðingurinn Anne Marte Pensgaard mun hafa það hlutverk að vinna með andlega þáttinn.
„Ég hitti liðið í fyrsta skipti rétt áðan,“ sagði Pensgaard við Fréttablaðið á æfingu norska liðsins í gær. Því er ekki hægt að kenna henni um 3-0 tap norska liðsins í Slóveníu á föstudag í fyrsta leiknum undir stjórn Högmo. Pensgaard hefur unnið með Högmo hjá þeim norsku liðum sem hann hefur þjálfað í gegnum tíðina. Koma hennar hefur því ekkert með dapurt gengi norska liðsins að gera.
„Það er hluti af stefnu Per-Mathiasar að hlúa að andlega þættinum,“ segir Pensgaard. Hún vakti töluverða athygli norskra blaðamanna í gær sem taka öllum nýjungum fagnandi. Fráfarandi þjálfari landsliðsins, Egil „Drillo“ Olsen, var löngum gagnrýndur fyrir leiðinlegt spil þótt hann hafi getað svarað með frábærum árangri fyrir 15 til 20 árum. Nú vilja þeir norsku nýja nálgun en eru ekki vissir hvort Högmo sé rétti maðurinn enda að einhverju leyti lærisveinn Olsen.
Pensgaard hitti norska hópinn í heild sinni í gær en segir að í framhaldinu muni hún aðallega vinna með einn leikmann í einu.
„Það er vel þekkt úr öðrum íþróttum hve mikilvægur andlegi þátturinn er til að ná árangri,“ segir sálfræðingurinn.
Sálfræðingur til hjálpar norsku strákunum
Kolbeinn Tumi Daðason í Osló skrifar

Mest lesið


Síðasti séns á að vinna milljónir
Fótbolti



Stefán mætir Liverpool þrátt fyrir fráfall Jota
Enski boltinn


Sex hafa ekkert spilað á EM
Fótbolti


