Erlent

Heimsbyggðin þarf að taka af skarið í Sýrlandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ekkert lát er á átökunum í Sýrlandi, sem hófust fyrir nærri tveimur árum.
nordicphotos/AFP
Ekkert lát er á átökunum í Sýrlandi, sem hófust fyrir nærri tveimur árum. nordicphotos/AFP
„Það er verið að leggja Sýrland í rúst, hægt og bítandi," segir Lakhdar Brahimi, erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi. „Og með því að eyðileggja Sýrland er verið að þröngva þessum heimshluta í afar slæma stöðu, og ástandið þar skiptir alla heimsbyggðina miklu máli."

Hann kennir jafnt stjórnarhernum sem uppreisnarhernum um og segir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði nú að þrýsta á báðar fylkingar. Þær verði að komast að málamiðlun.

Öryggisráðið hefur ekki getað náð neinu samkomulagi um aðgerðir gagnvart Sýrlandi. Bæði Rússar og Kínverjar hafa ítrekað beitt neitunarvaldi sínu í ráðinu gegn hvers kyns íhlutun í innanríkismálefni Sýrlands.

Rússneskir ráðamenn eru reyndar komnir á þá skoðun að Bashar al Assad Sýrlandsforseti hafi gert mikil mistök með því að ráðast ekki í umbætur, eins og hann lofaði eftir að almenningur tók að krefjast þess snemma árs 2011.

„Líkurnar á því að Assad haldi velli fara dvínandi með hverjum deginum og hverri vikunni sem líður," sagði Dmitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, í viðtali við CNN.

Brahimi segir nauðsynlegt að ná samstöðu bæði stjórnar og stjórnarandstöðunnar um Genfaráætlunina frá síðasta sumri, sem Vesturlönd og Rússland hafa stutt.

Samkvæmt henni ætti bráðabirgðastjórn að taka við völdum í Sýrlandi, en ágreiningur hlutverk Assads. Að mati Brahimis þarf öryggisráðið hins vegar að taka af skarið nú þegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×