Erlent

Hitaeiningafjöldi á sjálfsölum

Freyr Bjarnason skrifar
Bandarísk stúlka stendur fyrir framan sjálfsala.
Bandarísk stúlka stendur fyrir framan sjálfsala. Mynd/AP
Þeir sem kaupa sér vörur í bandarískum sjálfsölum geta framvegis séð hversu margar hitaeiningar þær hafa að geyma, samkvæmt lögum sem forsetinn Barack Obama hefur fengið samþykkt.

Með því að sýna fjölda hitaeininga á um fimm milljónum sjálfsala víðs vegar um Bandaríkin fá neytendur aðstoð við að borða heilnæmari vörur, segja matvæla- og lyfjasamtök Bandaríkjanna.

Talið er að kostnaður sjálfsalaiðnaðarins í Bandaríkjunum vegna þessa nemi 25,8 milljónum dala til að byrja með, eða tæplega þremur milljörðum króna. Sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu sem hlýst af þessu gæti numið að minnsta kosti álíka upphæð ef aðeins 0,02 prósent fullorðinna sem þjást af offitu myndu borða eitt hundrað færri hitaeiningar í viku hverri.

Reglugerðin nær til um 10.800 fyrirtækja sem starfrækja tuttugu eða fleiri sjálfsala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×