Erlent

Borgarstjórinn í London vill nýjan flugvöll á eyju úti fyrir minni Thamesár

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar í London hafa nefnt áformin eftir borgarstjóranum, Boris Johnson.
Íbúar í London hafa nefnt áformin eftir borgarstjóranum, Boris Johnson. Mynd/Testrad
Verði hugmyndir Boris Johnsons, borgarstjóra í London, að veruleika verður ný eyja gerð úti fyrir mynni Thamesár. Á eyjunni verður nýr flugvöllur, sem tæki við af Heathrow-flugvelli sem mikilvægasti alþjóðaflugvöllur Bretlands.

Undirbúningur er þegar kominn nokkuð á veg og hefur fyrirtækið Testrad, sem sér um undirbúninginn, nú þegar kynnt fyrstu drög að hönnun og útfærslu flugvallarins.

Íbúar í London hafa nefnt áformin eftir borgarstjóranum og kalla eyjuna Boris-eyju. Í plöggum frá Testrad og í opinberum skjölum er hins vegar talað um Brittania-flugvöllinn, sem á að kosta 47,3 milljarða punda, eða jafnvirði rúmlega 9.000 milljarða króna.

Hugmyndin er sú að ný flugvallarbygging verði reist við norðurbakka Thamesárósa, en nýjar hraðlestir flytji farþega til og frá London.

Flugvöllurinn yrði í 80 kílómetra fjarlægð frá Charing Cross lestarstöðinni í London, en hraðlestirnar eiga að geta flutt fólk þessa vegalengd á 30 til 40 mínútum.

Reiknað er með að flugvöllurinn geti orðið að veruleika innan sjö ára, en á næstu árum er því spáð að flugfarþegum muni fjölga verulega. Howard Davies, formaður flugvallanefndar bresku stjórnarinnar, skýrði nýlega frá því að á næstu árum verði að finna lausn á þessu og fjölga flugbrautum í suðausturhluta Bretlands.

Töluverð umræða hefur verið um nauðsyn þess að stækka Heathrow-flugvöll til að anna þessari væntanlegu auknu eftirspurn.

Johnson borgarstjóri segir marga kosti við að gera nýjan flugvöll á tilbúinni eyju úti fyrir ströndinni. Þar með losni íbúar í grennd flugvalla bæði við linnulítinn hávaða og hættuna á flugslysum, sem fylgir flugumferð yfir íbúðarhúsum þeirra.

Auk þess losni fólk við það rask sem fylgir nýjum flugbrautum á landi, því þær yrði vart hægt að leggja nema með því að rífa mikið af byggingum á því landsvæði, sem færi undir framkvæmdirnar.

Líklegt þykir að Heathrow-flugvelli verði lokað fari svo að nýja flugvallareyjan verði að veruleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×