Erlent

Sóðaskapur afhjúpaður í lúxusskemmtiferðaskipi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Silver Shadow á siglingu
Silver Shadow á siglingu
Bandaríska heilbrigðiseftirlitið afhjúpaði mikinn sóðaskap í lúxusskemmtiferðaskipinu Silver Shadow þegar eftirlitsmenn komu óvænt um borð þar sem skipið var í Alaska.

Skipið tekur 382 farþega og skipafélagið Silversea lofar þeim ókeypis kampavíni um borð. Gisting í ódýrustu tveggja manna klefunum kostar rúmlega 120 þúsund krónur á sólarhring, að því er kemur fram á vef Sænska Dagblaðsins. Þar segir að þrifnaðurinn hafi ekki verið í samræmi við verðið og kampavínið.

Undir kojum í klefum eldhússtarfsmanna fannst bæði hrár og eldaður matur sem tilbúinn var til framreiðslu. Eldhúsáhöld voru einnig á gólfum í klefum starfsmanna. Greinilegt þótti að starfsmenn hefðu flýtt sér að fela bæði matvæli og áhöld þegar eftirlitsmennirnir komu um borð.

Eftirlitsmennirnir fleygðu meirihluta matarins vegna mögulegrar hættu fyrir heilsu manna. Til þess að tryggja að matvælin yrðu ekki notuð eftir að eftirlitsmennirnir væru farnir helltu þeir klóri yfir þau.

Rusl fannst í mörgum kæligeymslum. Gerðar voru athugasemdir við að starfsmenn hefðu í nokkrum tilfellum ekki skráð á réttan hátt þegar þeir fengu niðurgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×