Fótbolti

Lukkudýrið Sigurwin er að slá í gegn í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Elísa sér um Sigurwin.
Elísa sér um Sigurwin. Mynd/ÓskarÓ
„Það var einn frakkur fótboltakappi frá Vestmannaeyjum sem hét Sigurvin Ólafsson og kallaður Venni,“ sagði Elísa Viðarsdóttir aðspurð um nafnið á lukkudýri kvennalandsliðsins, en hún fékk það hlutverk að passa upp á hann eftir sigurleikinn á móti Hollandi í kvöld.

Þar var á ferðinni gullfiskur sem stelpurnar gáfu Svölu Helgadóttur sjúkraþjálfara liðsins í afmælisgjöf.

„Við skrifum nafnið hans Sigurwin með tvöföldu vaffi í endann. Við viljum hafa sigurhefð í landsliðinu og það fer okkur ágætlega að vinna,“ sagði Elísa brosandi.

Þegar stelpurnar mættu með Sigurwin í krukku með vatni fóru þær með hann út á miðjan völl. Þær tóku hann upp úr krukkunni og settu hann á grasið í smástund áður en hann fékk aftur að fara upp í krukku.

„Ég var alfarið á móti því en Sara og Fanndís sögðu að það myndi boða lukku að henda á honum á grasið fyrir leik. Það gekk svona líka vel upp. Ég held að honum verði bara hent á grasið hér eftir,“ sagði Elísa.

„Ég er sú þriðja yngsta í liðinu og þessar tvær yngstu eru of ábyrgðarlausar til að sjá um svona lifandi dýr. Það þarf að passa upp á Sigurvin því það er einhver lukka yfir þessu kvikindi,“ sagði Elísa í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×