Erlent

Þrettán teknir í Tyrklandi í nótt

Þorgils Jónsson skrifar
Mótmælin standa enn í Tyrklandi og í nótt voru 13 handteknir, grunaðir um ofbeldisverk.
Mótmælin standa enn í Tyrklandi og í nótt voru 13 handteknir, grunaðir um ofbeldisverk. NordicPhotos/AFP
Lögreglan í Tyrklandi handtók þrettán mótmælendur í nótt, en þeir eru grunaðir um að hafa tekið þátt í ofbeldisverkum í óeirðunum sem hafa geysað um landið síðustu vikur.

Fréttastofa á vegum ríkisins segir að fólkið sé á vegum vinstri sinnaðra öfgahópa. Þau séu grunuð um að hvetja til óeirða, kasta eldsprengjum og vinna skemmdarverk.

Mannréttindasamtök segja að fleiri en 3.000 manns hafi verið handteknir eftir að mótmælin hófust. Tugir séu enn í haldi og að minnsta kosti sex eigi yfir höfði sér ákærur.

Lögregla í höfuðborginni Ankara leysti up hóp hundruða mótmælenda í nótt, en sú breyting hefur orðið á, að mótmælendur hafa látið af átökum við lögreglu, en leggja heldur áherslu á málstað sinn með því að standa hreyfingarlaus um götur og torg í stærstu borgum Tyrklands.

Átök hófust fyrir réttum þremur vikum þegar lögregla greip til aðgerða gegn friðsömum mótmælum við byggingaráformum í Istanbúl. Ástandið stigmagnaðist fljótt upp í allsherjar mótmæli gegn meintum alræðistilburðum Recep Erdogan forsætisráðherra Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×