Erlent

Samkynhneigðir fá að gifta sig í Minnesota

Þingið í Minnesota samþykkti ný lög sem leyfa hjónabönd samkynhneigðra.
Þingið í Minnesota samþykkti ný lög sem leyfa hjónabönd samkynhneigðra.
Hjónabönd samkynhneigðra verða leyfð í Minnesota í Bandaríkjunum frá og með ágúst á þessu ári. Þetta var samþykkt á þinginu á mánudaginn, eftir atkvæðagreiðslu. Atkvæðin voru 37 á móti 30, að sögn fréttavefjar New York Times.

Minnesota verður þannig tólfta ríki Bandaríkjanna til að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Minnesota verður jafnframt fyrsta ríkið í Miðvesturríkjunum til að breyta lögunum án atbeina dómstóla. Iowa neyddist til að leyfa hjónabönd samkynhneigðra eftir úrskurð dómstóla árið 2009.

Þessar lagabreytingar verða að teljast mikill sigur fyrir fylgjendur hjónabanda samkynhneigðra því að árið 2012 voru uppi umræður í Minnesota um að takmarka hjónabönd við hjónaband karls og konu.

Ríkin á austurströnd Bandaríkjanna hafa verið iðnari en miðríkin við að breyta lögunum, en fylgjendur lagabreytinganna vona að með þessu sé leiðin greidd fyrir fleiri ríki.

Hundruð söfnuðust saman í þinghúsinu í Minnesota á mánudaginn, syngjandi, með skilti og frammíköll. Það var þannig tilfinningaþrungin stund þegar ljóst var að lögunum yrði breytt.

- ósk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×